Hvort ætti ég að versla í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli þegar ég er að ferðast og af hverju?
Þegar þú verslar erlendis stendur þér oft til boða að velja á milli þess að greiða með íslenskum krónum, ISK, eða gjaldeyri þess lands, EUR/USD/GBP/o.s.frv. Þegar þér stendur það til boða skaltu alltaf velja gjaldmiðil landsins sem þú ert í: Ef þú ert í Danmörku velurðu DKK, ef þú ert á Tene velurðu EUR. Tökum smá dæmisögu þar sem þú ert að ferðast á Spáni, þar sem gjaldmiðillinn er EUR/Evrur:
1. Ef þú velur að greiða fyrir færsluna í EUR: Þá fáum við færsluna yfir til okkar í EUR. Við sjáum í framhaldinu um að gengisbreyta færslunni yfir í ISK á því gengi sem við fáum frá VISA (án gjaldeyrisálags!) Þú getur alltaf séð okkar gengi dagsins hér: https://indo.is/gengi
Gagnsæi er okkur hjartans mál í öllu sem við gerum og því getur þú alltaf ýtt á færsluna í færsluyfirlitinu og þar tökum við fram á hvaða gengi þú fékkst evruna. Í stuttu máli kaupir þú evruna af okkur ef þú ferð þessa leið.
2. Ef þú greiðir fyrir færsluna í ISK: Þá er það söluaðilinn sem að sér um að gengisbreyta á gengi sem hann ákveður. Það sem gerist er þá að söluaðilinn fær færsluna til sín í evrum og hann umbreytir færslunni yfir í ISK.- Indó fær færsluna til sín í ISK.- og við vitum í raun ekki hversu há færslan var í evrum talið. Yfirleitt eru færslur sem þessar mjög kostnaðarsamar þar sem söluaðili getur rukkað eins mikið fyrir evruna og hann kýs. Í stuttu máli ertu að kaupa evruna söluaðilanum ef þú ferð þessa leið.
Þetta á jafnt við um kortafærslur erlendis, hraðbankaúttektir erlendis og kortafærslur af erlendum netverslunum. Sumir erlendir hraðbankar gefa korthöfum ekki upp valmöguleikann að greiða á annan hátt en í ISK.- og við mælum sterklega með því að halda sig frá slíkum hraðbönkum og velja einungis hraðbanka sem gefa þér upp valkostinn að færslan fari fram í þeim erlenda gjaldmiðli sem við á.
Athugasemdir
0 comments
Ekki er hægt að skrifa athugasemdir við grein.