Af hverju birtast sumar færslur í bið?

Þegar þú greiðir með indó kortinu, þá fer peningurinn ekki strax frá þér til söluaðilans. Það sem gerist er að söluaðilinn spyr indó í gegnum færsluhirði: „Heimilar þú þessi kaup á þetta kort?“

 
Ef indó segir já, þá þýðir það að það er næg innistæða á reikningnum þínum fyrir sölunni.
Upphæðin er þá tekin til hliðar og þú sérð litla klukku á færslunni sem þýðir að hún er í bið þar til söluaðilinn gerir upp færsluna við VISA.
 
Vanalega gera söluaðilar upp við VISA á hverjum degi en getur það tekið sirka 1-3 daga fyrir söluaðila að senda inn uppgjör á færslum til VISA. Eftir 7 daga gefum við okkur það að söluaðilinn ætli sér ekki að innheimta færsluna og er hún felld niður ásamt því að ráðstöfunarheimild reikningsins hækkar.
 
Algeng notkun á biðfærslum er m.a. þegar þú ferð á bensínstöð og ákveður að fylla á tankinn. Þá geta t.d. 30 þúsund krónur verið teknar til hliðar fyrst um sinn. En þegar þú dælir á bílinn fyrir eingöngu 11 þúsund krónur, er biðfærslan uppfærð frá 30 þúsund krónum niður í 11 þúsund krónur og verða þessar 19 þúsund krónur sem liggja þar á milli strax aðgengilegar til ráðstöfunar.
 
Bílaleigur og hótel nota stundum biðfærslur sem tryggingagjald. Færslan getur þá verið skráð í bið í allt að 30 daga frá bókun. En fer það alfarið eftir söluaðilanum hvað það tímabil skal vera langt. Gefið að allt er með felldu við skil á bílnum eða útskráningu af hótelinu er biðfærslan felld niður af söluaðilanum.
 
Ef biðtíminn ílengist umfram það tímabil sem kemur fram í notendaskilmálum söluaðilans, þá er hægt að heyra í okkur á netspjallinu og við aðstoðum þig með næstu skref.

Var þessi grein gagnleg?

26 af 34 fannst þessi grein gagnleg

Ertu með fleiri spurningar? Senda fyrirspurn

Athugasemdir

0 comments

Vinsamlegast innskráning til að skilja eftir athugasemd.